Nýlega talaði Jessica Lanyadoo um Merkúr í afturhvörfum í hlaðvarpinu sínu, Ghost of a Podcast. Þar nefndi hún að afturhvörf væru náttúrulegur og eðlilegur partur af hringrás Merkúrs, og það snerti mig hvernig hún setti það fram. Við tölum oft um afturhvörf (sérstaklega Merkúrs) sem öfug og einhvernveginn röng. Það er eðlilegt, því frá okkar sjónarhorni virðist plánetan snúa sér öfugt, og hlutirnir sem tengjast plánetunni snúast á haus, fara á mis, og við upplifum óhöpp og misskilninga. En þessi uppsetning - að þessi hreyfing afturábak sé hluti af náttúrulegri hringrás plánetunnar - getur hjálpað okkur að sjá þessi tímabil í nýju ljósi. Þetta er dálítið eins og gömlu vikivaka dansarnir, þar sem fólk stendur í hring og hreyfir sig saman tvö skref til hægri, eitt til vinstri, svo tvö til hægri o.s.frv. Skrefin til vinstri eyðileggja ekki dansinn, og í raun mætti segja að það séu þau skref sem geri vikivakann að dansspori, annars værum við bara að ganga í hringi. Á svipaðan hátt er hægt að sjá regluleg afturhvörf Merkúrs, og hinna plánetanna, sem óaðskiljanlegan hluta af skilaboðum eða þemum plánetanna.
Þetta er ekki sagt til þess að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem fylgja oft afturhvörfum, og ég hef sjálft steytt hnefann í átt til himins þegar ég upplifi pirring, sorg eða reiði vegna þess sem gerist undir afturhvörfum. En það að kenna stjörnunum um er tilgangslaust, og þá missum við af tilgangnum. Hreyfing himintunglanna endurspeglar aðeins það sem gerist hér á Jörðinni. Auðvitað er það auðveldara að kenna stjörnunum um það sem gerist, því þær eru svo fullkomlega utan seilingar okkar og við vitum að við munum aldrei hafa nein áhrif á það hvernig þær hreyfast. Mannleg vandamál eins og kapítalismi, kynþáttahyggja, stríð, eigingirni og heilbrigðisvandamál eru hins vegar innan seilingar, eða a.m.k. nær heldur en stjörnurnar. Kapítalismi er kerfi sem þrífst á eiginhagsmunahyggju, ójafnrétti og hömstrun auðlinda fyrir fámennan forréttindahóp, og þetta kerfi elskar að ata ólíkum hópum á móti hvorum öðrum. Kennið innflytjendum, múslimum, heimilislausum eða hinsegin fólki um vandamálin ykkar. Þegar við kennum stjörnunum um erum við a.m.k. ekki að ýta jaðarsettum hóp fyrir rútuna, en við erum ennþá að viðhalda óbreyttu ástandi og fela raunverulega rót vandamálsins.
Hreyfing himintunglanna hefur ekki áhrif á það sem gerist, alveg eins og að það sem við gerum hefur ekki áhrif á gang þeirra. En það sem er fyrir ofan er eins og það sem er fyrir neðan - stjörnurnar spegla gjörðir okkar. Við höfum ennþá val um það hvernig við bregðumst við því sem gerist í kringum okkur, og þó það sé freistandi að bölva bara afturhvörfum Merkúrs, Fulla Tunglinu eða Satúrnusi, þá ætti það aldrei að vera einu viðbrögðin okkar. Stjörnuspeki getur nefnilega sýnt okkur hvernig við getum leyst úr flækjunni og komist að rót vandamálanna okkar. Sem dæmi þá hafa þau vandamál sem koma upp fyrir mig persónulega í kringum Úranus (sem hefur verið áberandi erfið pláneta síðustu fjögur árin, og seinustu vikuna) verið tengd líkamlegri heilsu. Það getur verið ákveðin losun í því að bölva Úranusi þegar ég ligg fast uppi í rúmi í verkjakasti, en ég veit það líka að rót vandans liggur í samfélagi og heilbrigðiskerfi sem hunsar áhyggjur kvenna og kvára, og markviss svelting heilbrigðiskerfisins seinustu ár. Og þó að ég geti sannarlega ekki gert neitt á mínar eigin spýtur gagnvart því, þá get ég a.m.k. haft einhver áhrif á samfélagið og heilbrigðiskerfið með aðstoð nærsamfélagsins míns.
ความคิดเห็น