Í dag byrja fardagar, en þeir eiga uppruna sinn langt aftur í aldir í sögu Íslands. Þessir fjórir dagar, sem byrja alltaf á fimmtudegi og enda á sunnudegi, voru þeir dagar þar sem fólk á Íslandi fluttist milli bæja, til dæmis þegar fólk leigði jarðir, þurfti að bregða búi eða var vinnuhjú. Um 1400 og þar til vistarbandinu var aflétt í byrjun 20. aldarinnar voru vinnuhjú bundin við vinnuhjúaskildaga, sem var á Krossmessu, fyrri helming maímánuðar. Við lærðum flest um vistarbandið í skóla, en það var ekki fyrr en nokkuð nýlega, þegar ég byrjaði að vinna markvisst með og tengja við forvera mína, og las skáldsögu frænda míns um formæður mínar sem voru vinnukonur, að ég skildi raunverulega hvílíkt harðræði þessi lög voru. Fólk sem átti ekki efni á að halda eigin búi var neytt í vinnumennsku hjá öðrum og mátti þá ekki yfirgefa bæinn (nema með leyfi), eignast börn eða ganga í hjónaband. Auðvitað voru ýmsar ástæður að baki þessum lögum, til dæmis til að tryggja að hér væri hægt að búa og rækta nægan mat til að fæða þjóðina og að fólksfjölgun yrði ekki of mikil umfram framleiðslugetu landsins, en eins og alltaf koma slík lög verst út fyrir þau sem minna mega sín. Um 25% þjóðarinnar voru í vistarbandinu á 19. öldinni, svo það hlýtur að teljast líklegt að flest okkar sem eiga forvera á landinu frá þeim tíma geti rakið ættir okkar til vinnuhjúa. Á miðöldum í Evrópu var svipað fyrirkomulag, kallað bændaánauð, en þar var fólk oft skipað til að vinna á sama bænum allt sitt líf á meðan að íslensk vinnuhjú skuldbundu sig einungis til eins árs í senn. Þetta þýddi að íslensk vinnuhjú gátu komist burt af bæ þar sem illa var farið með þau, en það þýddi líka að þau áttu ekki stöðugt heimili eða öruggan samastað þar sem þau gátu rótfest sig.
Mannfólkið hefur alltaf búið til flakkara og förufólk, enda eigum við öll dýpstu rætur okkar í hirðingja og flökkusamfélög sem fluttust búferlum með árstíðum og náttúrulegum hringrásum. Þrátt fyrir átök um og yfir manngerðum landamærum er auðveldara en nokkurn tíma fyrir okkur að flakka um allan heiminn, gera okkur hreiður langt í burtu frá uppruna okkar og sameinast öðrum menningarheimum. En á sama tíma er gríðarlegur fjöldi fólks sem er rifið upp, með skornar rætur, og neytt til þess að flýja heimili sín gegn vilja þess. Með þessum skrifum vil ég alls ekki gefa í skyn að hælisleitendur og flóttafólk sé ekki velkomið að búa hér, því það er það svo sannarlega að mínu mati. Það sem ég vil að við íhugum eru sárin sem verða til við það að vera neydd á flakk, flytjast milli staða og landa aftur og aftur, til þess eins að þurfa að flýja á nýjan stað í von um öruggt heimili. Ein leið til þess að skilja þessi sár betur er með því að tengja við þau áföll og erfiði sem forverar okkar þurftu að ganga í gegnum, hvort sem það var vegna vistarbandsins, útlegðar, fátæktar, náttúruhamfara eða pólitískra skoðana, og hvort sem þau fluttu sig um set innanlands, fóru vestur um haf eða fluttu hingað annars staðar frá.
Jarðtenging og rótfesta hafa orðið sífellt mikilvægari fyrir okkur á tímum þar sem við tengjum hugrænt við alla restina af heiminum á örskotsstundu og við lifum að miklu leyti í huganum eða á netinu. Hugræn atferlismeðferð, jóga og ýmsar aðrar meðferðir sem við leitum í til að létta á kvíða og stressi, snúast að miklu leyti um að snúa inn á við, vera í líkamanum hér og nú og ná tengingu við jörðina. Andatrú (anímismi) snýst líka um tengingu við jörðina þar sem við erum, jafnvel á meðan við erum á flugi í huganum eða í transi. Þetta er eitthvað sem við getum gert hvar sem við erum, en tenging við sínar eigin rætur aftur í tímann er enn dýpri tenging sem við hefðum mörg gott af að rækta líka.
Andleg tenging við forvera okkar og rætur gefur djúpstæða og mikilvæga tengingu við okkur sjálf, annað fólk og náttúruna, og við getum öll fundið slíka tengingu. Hvort sem þú trúir á líf eftir dauðann, eilífa sál, endurholdgun eða ekkert geturðu tengt við minninguna um fólkið sem hefur komið á undan þér. Trú á æðra afl, hvers kyns sem sú trú er, getur dýpkað tenginguna en hún er alls ekki nauðsynleg. Það eina sem þú þarft er líkaminn þinn og staður þar sem þú getur komið þér þægilega fyrir í 10-15 mínútur án truflana.
Ef þér finnst það þægilegra geturðu hlustað á upplestur af æfingunni, eða lesið textann fyrir neðan.
Byrjaðu á að finna fyrir líkamanum þínum, frá hvirflinum, niður andlitið, herðarnar, búkinn, mjaðmirnar, fótleggina og alveg niður í fætur. Þetta snýst bara um athygli, ekki tilfinningar, en það getur hjálpað að hreyfa hvern part örlítið ef þú getur á meðan þú veitir honum athygli. Settu síðan athyglina á þann part líkamans sem snertir jörðina - gólfið, rúmið, stólinn eða hvað sem þú nýtir þér. Ímyndaðu þér að hjartað þitt sendi niður rætur í þennan part, svipað og tauga- eða æðakerfi líkamans, en þessar rætur fara niður úr líkamanum, í gegnum það sem þú situr á, gegnum gólfið, og alla leið niður í jörðina. Því lengra sem þær ferðast, því meira tvístrast þær svo þeim fjölgar því lengra ofan í jörðina sem þær fara. Þessar rætur eru ættartréð þitt, allt fólkið sem kom á undan þér og gaf þér hluta af sínu erfðaefni til að bera áfram. Fyrir þessa æfingu þarftu ekkert að hugsa um þá hluta ættartrésins sem þér er illa við eða hefur hafnað af hvaða ástæðu sem er, því við ætlum að ferðast yfir þann hluta trésins sem var lifandi á sama tíma og við. Mér finnst gott að þylja þessar línur úr íslensku þjóðsögunum og ég mæli sérstaklega með þeim við þau sem eiga erfiða fjölskyldusögu eða flóknar tengingar við fjölskylduna sína:
„Komi þau sem koma vilja, veri þau sem vera vilja, fari þau sem fara vilja, mér og mínum að meinlausu.“
Þegar þú hefur fundið leið til að sitja með ættartrénu þínu, ímyndaðu þér þá að við séum öll með slíkt rótarkerfi, hvar á jörðinni sem við erum. Finndu fyrir því hvernig þitt rótarkerfi tengist fólkinu í kringum þig, jafnvel fólki sem er ekki í fjölskyldunni þinni. Einhverstaðar langt aftur í tímann getum við alltaf fundið sameiginlega forvera, jafnvel ef við þurfum að fara aftur fyrir steinöld til að finna tenginguna.
Hvar sérðu rótarkerfið þitt hreyfa sig úr stað vegna flutninga fólksins? Kannski veistu hvers vegna það flutti og við hvaða aðstæður, hvort það var af eigin sjálfsdæði eða vegna neyðar. Geturðu fundið fyrir því í rótunum þínum? Geturðu sett þig í spor forvera þinna, allra þeirra sem neyddust á einn eða annan hátt til að slíta upp rætur sínar og flytja, kannski oft á stuttum tíma, í leit að samastað? Ef þú getur fundið fyrir þeim, fyrir hugrekkinu, sorginni, styrknum og sárunum, hvet ég þig til þess að finna þessar tilfinningar innra með þér, og tengja síðan við það hversu mörg í heiminum upplifa nákvæmlega sömu tilfinningarnar í dag. Öll þau sem finna rætur sínar rifna og trosna í Palestínu, Kongó, Súdan, Xinjiang, Eþíópíu og annars staðar þar sem mannfólk hefur ákveðið að samfélags- eða þjóðfélagshópar megi ekki lengur lifa í friði, þau finna fyrir þessum sömu tilfinningum, og það er því skylda okkar að hjálpa þeim eins og við myndum hjálpa forverum okkar.
Þegar þú kemur loks aftur í líkamann þinn, þakkaðu þá forverunum fyrir samfylgdina og kveddu þau. Þú gætir viljað kveikja á kerti eða skilja eftir glas af vatni, kaffi eða áfengi við hlið mynda af forverum þínum eftir æfingu sem þessa, eða setja blóm á leiði þeirra. Fyrir þau sem eru enn á lífi og á flótta eru margar leiðir til að hjálpa - til dæmis með því að mæta á mótmæli, deila fréttum og hlekkjum á hjálparsamtök eins og Operation Olive Branch, eSims for Gaza, Friends of the Congo og Solaris. Forverar okkar eru hluti af okkur og við getum alltaf leitað til þeirra fyrir ráðleggingar, hughreystingu og tengingu þegar við þurfum þess.
Teikningin er eftir Bayard Taylor frá 1862 og sýnir íslenskt vinnufólk að störfum.
Upplýsingar um vistarbandið og fardaga fengnar frá Wikipedia, Vísindavefnum og Íslenskt almanak.
Pósturinn var meðal annars innblásinn af forverum mínum, og hlaðvarpsþættinum Let Us Sing of the Syncretic Gods of Outcasts and Wanderers.
Comments