Laugardaginn 23. september, rétt fyrir Sólarupprás, fer Sólin í merki Vogarinnar og markar þar með haustjafndægur. Í þeim anga stjörnuspekinnar sem skoðar almenn áhrif stjarnanna á heilu samfélögin (sem ég kalla veraldlega stjörnuspeki, á ensku mundane astrology) er sérstaklega horft til þess þegar Sólin fer í eitt frumkvæðu merkjanna, þ.e. Hrút, Krabba, Vog og Steingeit, en það er þegar sólstöður og jafndægur eru. Þessar hreyfingar eru notaðar sem eins konar undirstöður fyrir næsta ársfjórðunginn og hafa mikið að segja um það sem koma skal næstu þrjá mánuði. Á meðan pláneturnar eru í sömu merkjum út um allan heim, þá er hægt að skoða hvernig húsin liggja á hverjum stað fyrir sig og fá þannig mynd af því hvernig þetta tímabil verður á hverjum stað fyrir sig.
Í Reykjavík verður þessi hreyfing Sólarinnar á meðan merki Meyjunnar er að klára að rísa upp yfir sjóndeildarhringinn, og því er kortið með rísandi Meyju. Miðhiminn kortsins er í Tvíbura, og þar sem bæði þessi merki eru undir áhrifum Merkúrs, er mikilvægt að taka tillit til Merkúrs í þessu korti. Það er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að lýðveldishátíð þjóðarinnar (17. júní 1944) hefur stjörnukort með Sól í Tvíbura við hlið Venusar, sem er einmitt á sama stað og Miðhiminn Vorgarkortsins. Krossmark kortanna tveggja, það er krossinn sem markar sjóndeildarhringinn og Miðhiminn, er á nákvæmlega sömu gráðum í báðum kortum. (Krossmarkið er einstakt á hverjum stað fyrir sig og er það sem hús kortsins eru reiknuð út frá, svo það er óvenjulegt að báðar línurnar falli svona nákvæmlega eins akkúrat á mikilvægum tíma - ég skoðaði t.d. sólstöður og jafndægur hvers árs frá 2008 og fann einungis sex kort þar sem önnur línan var hliðstæð lýðveldiskortinu, og þá var það alltaf sjóndeildarhringslínan samhliða miðhiminslínunni eða öfugt.)
Ein túlkun á þessu er sú að á næstu þremur mánuðum (þar til Sólin fer í Steingeit) muni íslenska lýðveldið að einhverju leyti endurspegla eða uppfylla loforð sem við gáfum með setningu lýðveldisins árið 1944. Eitt af því sem kemur fyrst upp í huga minn er stjórnarskráin, sem var einmitt opinberlega sett á lýðveldishátíðinni, en þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 þar sem þjóðin kaus um að skrifa upp nýja stjórnarskrá byggða á tillögu Stjórnlagaráðs er stjórnarskráin frá 1944 enn í gildi. Eins gæti eitthvað breyst í ríkisstjórn, en samstarf flokkanna í núverandi ríkisstjórn hefur verið gagnrýnt nokkuð nýlega. Til gamans má geta að um haustið 1944 var kosin ríkisstjórn sem var leidd af Sjálfstæðisflokkinum í samstarfi með Alþýðuflokknum og Sósíalistaflokknum, en það samstarf rofnaði um tveimur árum seinna vegna ágreinings flokkanna.
Það er mikilvægt í þessu samhengi að muna að þó að setning lýðveldisins sé án efa eitt af mikilvægari kortum til að skoða fyrir íslenska stjórnsýslu, þá er það ekki eina kortið sem er hægt að skoða, og birtir heldur ekki alla myndina fyrir þjóðina eða landið. Það verður þó áhugavert að sjá hvernig þessi staða mun birtast á næstu þremur mánuðum. Ég hef ekki mjög mikla reynslu af veraldlegri stjörnuspeki ennþá, og hef ekki verið að fylgjast sérstaklega vel með stjórnmálum seinustu mánuði heldur, svo ég hef án efa misst af mörgu og fer því ekki of djúpt í túlkun mína að sinni. Ef þér detta í hug einhverjar tengingar milli stjórnsýslu eða stjórnmála dagsins í dag og þess sem var í gangi á Íslandi í kringum lýðveldishátíðina ‘44 væri mjög gaman að heyra af því í kommentum eða í gegnum Hafðu samband flipann hér á síðunni.
Comments