Íslendingar hafa alltaf haft sérlega mikinn áhuga á uppruna sínum og forverum og þó að það fari minna fyrir því nú til dags en áður þá erum við flest svo heppin að eiga vel varðveitt gögn um fjölskyldutré okkar sem er auðvelt að skoða og grúska í. Þau okkar sem eiga aðeins flóknari fjölskyldutengingar gætu þurft að leggjast í aðeins meiri handavinnu til að draga upp tengingarnar sínar, til dæmis ef við eigum ættir að rekja til annarra landa, ef opinber skráning sýnir fósturforeldri þegar við viljum vita meira um blóðtenginguna, eða skráning sýnir blóðforeldri sem við viljum ekki tengja við og viljum jafnvel frekar tengja við fjölskyldu fósturforeldris. Forveravinna (e. ancestor work) er frekar nýtilkomið orð yfir iðkun sem ég hef ekki oft séð setta í íslenskt samhengi og því langar mig að gera tilraun til þess hér. Þessi iðkun er ekki trúarlegs eðlis á þann hátt að hún tengist sérstökum trúarbrögðum eða andlegri vissu, því það er auðvelt að setja hana í hvaða andlega eða trúarlega samhengi sem hentar þér, og forverum þínum, best. Það sem gerir þessa iðkun andlega er þó sú tilfinning sem kemur með henni, sem ég get best lýst sem andlegri ró eða fullvissu, sem er svipuð því sem ég finn stundum í gegnum mína eigin trúarlegu iðkun.
Í dag hafa mörg okkar misst tenginguna við forvera okkar, sem og jörðina sem við búum á, andlegar upplifanir og tengingar. Trúlaust, kapítalískt samfélag byggir að miklu leyti á því að einangra okkur frá slíkum tengingum, t.a.m. með tilkomu kjarnafjölskyldunnar og vaxandi einstaklingshyggju. Með því að tengja við forverana brjótum við upp þessa einangrun og setjum okkur í samhengi við allt í kringum okkur, bæði í tíma og rúmi. Gjörðir okkar í dag verða hluti af stærri sögu eða hringrás sem forverar okkar sem og niðjar okkar í framtíðinni verða hluti af, og slík hugsun hjálpar okkur að sjá hlutina í stærra samhengi. Forveravinna hefur hjálpað mér að finnast ég hluti af einhverju stærra þegar mér finnst ég vera bjargarlaust eða eins og ég geti ekki haft nein áhrif á heiminn í kringum mig. Ég hef getað fundið leiðir til að vinna í hugsanamynstrum með því að setja þau í samhengi út frá forverum mínum og átt auðveldara með að skilja hvaðan ég kem og hvers vegna ég er eins og ég er þökk sé þeim. Ég hef jafnvel séð hliðar á lifandi fjölskyldumeðlimum í nýju ljósi og átt auðveldara með að sýna fólki í kringum mig skilning og samkennd.
Forverar
Við getum öll tengt við forvera okkar, en mörg okkar eiga erfiðar fjölskyldusögur sem gera það að verkum að fólk vill eða getur ekki tengt við forvera sína. Það er allt í lagi, og ég legg mig alltaf fram um að tengja við forverana á hátt þar sem við höfum sjálf vald til þess að setja eigin mörk. Ef það er ákveðinn partur af fjölskyldunni þinni sem þú ert ekki tilbúið/n/nn eða vilt alls ekki tengja við, þá máttu setja mörk og banna þeim að koma inn til þín. Í rauninni er það auðveldara að setja mörk við þau framliðnu en þau lifandi, því forverarnir hafa ekki líkama og verða að virða táknræn og andleg mörk. Sum okkar hafa engin tengsl við neina úr blóðfjölskyldu sinni, og þau hafa því val um það hvort þau vilji tengja við blóðfjölskyldu sína í gegnum forveravinnu eða vinna með uppeldis- eða fósturfjölskyldu. Persónulega finnst mér blóðtengingin alveg jafn mikilvæg og uppeldis- og fósturtengingin, og það fer eftir hverju og einu okkar hvernig við túlkum þessar tengingar fyrir okkur.
Önnur mikilvæg tenging er það sem ég kalla samfélagslega forvera, en það er fólk sem tróð samfélagslegan slóða sem hefur opnað einhvern veg fyrir okkur persónulega í dag. Sem hinsegin manneskja finnst mér t.a.m. mikilvægt að heiðra hinsegin forvera minna, bæði þau sem ruddu veginn hér á Íslandi þaðan sem ég er, og um allan heim. Þannig er hægt að halda uppi minningu og tengingu við öll þau sem hafa komið á undan þér og barist fyrir réttindum, skapað betri heim eða unnið að málefnum sem þú tengir sterklega við. Ég hef mest nýtt þessa tengingu í samhengi við jaðarsetningu, en sem listskapari get ég líka kallað á alla listskapara sem komu á undan mér, hvort sem þau eru í ættartrénu mínu eða tengjast mér á annan hátt.
Tengingin
Þegar þú byrjar forveravinnu er best að hugsa nær þér. Hugsaðu til fjölskyldumeðlimar eða vinar sem hefur fallið frá sem þú saknar, eða fjölskyldumeðlimar sem þú manst ekki eftir en hefur heyrt margar sögur af. Kannski ertu þegar með mynd af viðkomandi á heimilinu þínu, sem getur verið byrjun á forveraaltari. Ef þú átt mynd, finndu fallegan ramma fyrir hana, settu hana fyrir framan þig og kveiktu á kerti eða kósý lampa og sittu með myndinni í smá stund. Ef þú veist um ákveðinn stað sem þú tengir við viðkomandi getur verið hjálplegt að fara þangað ef þú getur, eða ímynda þér staðinn. Sjáðu fyrir þér manneskjuna eins og hún var, hvernig viðkomandi hreyfði sig, talaði, brosti og hló. Rifjaðu upp fallega minningu. Þú gætir viljað segja eitthvað við manneskjuna, og hvort sem þú segir það upphátt eða í huganum geturðu ímyndað þér hvernig manneskjan myndi bregðast við.
Stundum er engin ákveðin manneskja sem kemur upp og þá er hægt að opna og bjóða þeim forverum inn sem vilja þér vel og vilja vinna með þér. Ef þú átt erfitt með að tengja finnst mér stundum hjálplegt að segja mitt nafn, kynna mig, og svo nafn manneskjunnar sem ég vil tengja við, og bjóða henni þannig inn til mín, eða nefna tenginguna sem ég er að leitast eftir. Sem dæmi væri hægt að bjóða alla forvera sem vilja hjálpa þér að vinna með ákveðin vandamál, eða forvera sem upplifðu ákveðna hluti sem þú vilt læra meira um. Finndu fyrir nærverunni sem kemur til þín og skilaboðum, ef einhverjum. Þau gætu komið sem orð sem þér dettur skyndilega í hug, sem mynd eða óvænt minning. Oft er það bara hlýleg nærvera og ást, og það er ekki minna mikilvægt. Þegar þú vilt fara er góð regla að þakka fyrir þig og ef þú átt bæn eða einhverja hefð eins og að opna og loka hringnum er það við hæfi líka. Í byrjun athafnar hef ég þá hefð að fara með eftirfarandi vísu til þess að til mín komi aðeins þeir forverar sem vilja mér og mínu fólki vel:
„Komi þau sem koma vilja, Veri þau sem vera vilja, Fari þau sem fara vilja, Mér og mínum að meinlausu.“
Forveraaltari
Þegar ég byrjaði að vinna með mínum forverum þá kom forveraaltarið nánast að sjálfu sér - ég byrjaði að safna saman alls konar hlutum sem ég vildi færa þeim, og fékk oft skilaboð um hluti sem þau vildu. Altarið getur verið einfalt, sérstaklega í byrjun - ef þú átt mynd af forverum sem þú vilt tengja við mæli ég með að finna fallegan ramma, sérstaklega gamla, notaða ramma, og stilla þeim upp á fallegum stað með kerti, reykelsi eða aðra hlýlega birtu. Í mörgum siðum er það talinn slæmur forboði að setja myndir á forveraaltarið af fólki sem er enn lifandi, en það eru í raun engar fastar reglur um þetta í íslenskum siðum, svo fylgdu eigin sannfæringu. Ef þú átt muni frá þeim eða sem þú tengir við þau geta þeir átt heima á altarinu líka. Persónulega hef ég týnt saman ótal hluti í gegnum árin, þ.á.m. steina, skeljar, þurrkaðar plöntur, litlar styttur, málverk og fallega diska sem mér finnst eiga heima þar. Auk þess er ég með vatnsglas sem ég skipti um reglulega, lítinn kaffibolla sem ég helli upp á, og disk þar sem ég set smá tóbak og þurrkuð blóm eða te. Áfengi er líka vinsæl gjöf, sérstaklega sterkt áfengi, en passið að láta áfengið og kaffið ekki sitja of lengi svo það skemmist ekki eða laði að sér flugur. Áfengisfíknin hefur líka lengi verið sterk á Íslandi og henni fylgja oft djúp sár, svo það er við hæfi að spyrja fyrst hvort það sé í lagi að setja áfengi á altarið. Ef þú drekkur eða reykir ekki þá finnurðu bara eitthvað annað (þó ég hafi reyndar stundum keypt tóbak sérstaklega fyrir forverana) - fersk blóm í fallegum vasa, matur (passaðu að hann skemmist ekki og að dýr á heimilinu komist ekki í hann) eða eitthvað sem þú hefur búið til/föndrað.
Hvað svo?
Framhaldið er í raun mjög persónubundið. Sumt fólk heldur reglulega kvöldmatarboð fyrir forverana þar sem þau elda góðan mat og setja svo fram auka disk af mat fyrir forverana. Sumt fólk gerir þetta eitt og jafnvel í þögn (e. dumb supper), en önnur gera veislu með hóp af lifandi fólki og fyrir sameiginlega forvera. Eftir matinn er svo misjafnt hvort fólk borði matinn sem var settur fyrir forverana (hugmyndin er þá að forverarnir borði með öðrum skynfærum, svosem lykt og sjón og því sjái þau ekki eftir matnum sjálfum), setji hann í lífrænt rusl eða út fyrir fuglana eða önnur dýr ef það er matur við þeirra hæfi. Aðrar hefðir geta verið tengdar ákveðnum hátíðsdögum, afmælum eða dánardögum o.s.frv. Persónulega á ég alltaf erfitt með að muna eftir slíkum dögum, svo ég fylgi frekar tilfinningunni - stundum vil ég biðja forverana að vera með mér eða hjálpa mér með eitthvað ákveðið verkefni og stundum finn ég að þau eru að kalla á mig fyrir einhver skilaboð eða gjöf sem þau vilja. Stundum koma þau einfaldlega til mín, sérstaklega þegar ég er að ganga í gegnum erfiðleika eða þegar ég er að gera eitthvað sem þau höfðu brennandi áhuga á í sínu lífi. Það er ótrúlega skemmtilegt að fá að sýna einhverjum sem stundaði stjörnuspeki á miðöldum hversu fljótt ég er að reikna nákvæmlega út stöðu himintunglanna með tölvunni eða símanum í dag, og það gefur mér alltaf nýja sýn á hlutina að sjá þá frá þeirra sjónarhorni.
Þó ég hafi talað hér um að setja skýr mörk og fókus á jaðarsetningu er mikilvægt að muna að með forveravinnu er líka hægt að sinna mikilvægri sjálfsvinnu í tengingu við forréttindi og forréttindahyggju. Sem hvít manneskja af norrænum ættum get ég til dæmis ekki hunsað það að mikið af þeim réttindum og hlunnindum sem ég og forverar mínir hafa notið góðs af hafa komið beint frá hvítri forréttindahyggju, kynþáttafordómum og þrælahaldi. Við eigum öll forvera sem gerðu hluti sem ganga þvert á okkar eigin gildi og á meðan það getur verið gott að setja þá forvera á pásu á meðan við erum að læra á forveravinnu, þá er til gríðarlega mikils að vinna með því að vinna með einmitt þeim forverum. Slík vinna getur upprætt innri og innbyggða fordóma hjá okkur og gert okkur sterkari í að vinna gegn slíkum fordómum í kringum okkur.
Forverar mínir eru alltaf með mér, enda eru þau bókstaflega hluti af líkamanum mínum - hvort sem það er í gegnum erfðaefni eða hugmyndir og lífshlaup sem hafa haft djúpstæð áhrif á mig. Þau hafa kennt mér gríðarlega mikið og gefa mér tengingu sem ég hefði aldrei getað fengið einungis frá lifandi fólki - tengingu aftur í tímann sem gerir mig að parti af heimssögunni, en líka tengingu fram í tímann, því mitt helsta markmið núna er að verða einn daginn góður forveri með því að lifa góðu lífi og auðga heiminn og samfélagið. Ég vona að þú getir fundið slíka tengingu líka.
Comments