top of page
Writer's pictureVilliljós

Satúrnus í Fisk

Þriðjudaginn 7. mars kl. 13:35 á íslenskum tíma fer Satúrnus úr sínu heimamerki, Vatnsberanum, og inn í Fisksmerkið. Þetta eru ákveðin tímamót, því Satúrnus hefur eytt síðustu sex árum í sínum eigin merkjum (Steingeit og Vatnsbera), og hefur verið mjög áberandi í stærstu stjörnuhreyfingum seinustu ára. Til að skilja hvað það þýðir er gott að rifja upp helstu sérkenni Satúrnusar.

Satúrnus er pláneta sem vakir yfir takti tímans, en nafnið kemur frá rómverska goðinu Satúrnusi (skyldur gríska títaninum Krónos), sem var guð tímans og árstíðanna meðal annars. Í stjörnuspekinni hefur Satúrnus m.a. það hlutverk að minna okkur á að tíminn líður í endalausa hringi, og að ef við viljum ekki endalaust þurfa að finna upp hjólið er mikilvægt að passa upp á og viðhalda þekkingu þeirra sem komu á undan okkur. Hán minnir okkur einnig á að til þess að uppskera þurfum við að plægja akurinn, sá, vökva og hlúa að plöntunum - sagan um Litlu gulu hænuna er gott dæmi um sögu með Satúrnískan boðskap. Önnur mikilvæg lexía sem Satúrnus getur kennt okkur er að setja heilbrigð mörk, og virða mörk annarra. Satúrnus er alltaf að hugsa um stóru myndina og langtíma markmið, og því er það háni mikilvægt að gera framtíðarplön, hlúa að sér til að viðhalda þolinu og vinna jafnt og þétt að markmiðum sínum. Öll þessi þemu koma mjög skýrt í ljós þegar við förum í gegnum Satúrnusarendurkomuna okkar (e. Saturn return) í kringum 29 ára aldurinn.



Drawing of Cronus/Saturn as an old man with a white beard. He is wearing a red robe wound around his chest and is holding a large hourglass in front of his chest.
Cronus, source unknown

Steingeitin og Vatnsberinn eru bæði heimamerki Satúrnusar, og þemu þeirra byggjast því að miklu leyti á þemum plánetunnar. Þegar pláneta er í eigin heimamerki er talað um að hún sé sterk, því þá er hún í stöðu þar sem hún getur gert það sem hún vill fullkomlega á eigin forsendum. Satúrnus hefur því, síðan 2017, sýnt okkur öllum að við höfum ekki verið að plægja akurinn eða viðhalda honum nógu vel, við höfum einfaldlega beðið eftir því að borða brauðið sem einhver annar sér um að baka. Þegar við erum ekki nógu dugleg að taka ábyrgð á eigin gjörðum, þá heldur Satúrnus ekki aftur af lexíunni - við höfum t.d. ekki verið að taka nógu mikla ábyrgð þegar kemur að umhverfismálum, og því erum við núna að upplifa náttúruhamfarir og veðurfar í takt við það. Heimsfaraldurinn hefði getað verið lexía í að vinna saman að lausn og halda utan um viðkvæmustu hópa samfélagsins, en í staðinn höfum við sett gróða og einstaklingshyggju í forgang, og við þurfum að horfast í augu við afleiðingarnar af því næstu árin. Skammsýni, græðgi og instant lausnir hafa lengi verið svörin okkar við þeim lexíum sem Satúrnus hefur sent okkur, sem er algerlega á skjön við það sem plánetan vill frá okkur. Sem betur fer hafa fleiri og fleiri áttað sig á því á seinustu sex árum að við þurfum langtímalausnir og samstöðu, þó við eigum ennþá langt í land.


Meme collage image of a white person looking annoyed, showing a large clock drawn behind them. instead of numbers, the clock has twelve stop signs. the person says "good heavens, would you look at the time!"

Við innkomu Satúrnusar í Fiskinn mun Satúrnus ekki lengur birtast sem strangi kennarinn sem vill bara að við stöndumst væntingar sínar. Þemu Fisksins virðast við fyrstu sýn stangast á við þemu Satúrnusar - á meðan Satúrnus vill skýr mörk, sjálfsaga, rökhugsun og ábyrgð, vill Fiskurinn óljós mörk, sameiningu, innsæi og flæði. Satúrnus í Fisk getur sýnt okkur mikilvægt jafnvægi sem við höfum ekki haft aðgengi að seinustu ár, sérstaklega síðan 2013 þegar Neptúnus fór í Fisk og hefur síðan þá ýtt undir suma af erfiðari eiginleikum merkisins - t.d. flótta, óábyrga hegðun, afneitun, vanvirðingu á mörkum annarra og skipulagsleysi. Satúrnus getur á móti ýtt undir ýmsa hæfileika Fisksins, t.d. samkennd, samfélagslega ábyrgð, tilfinningalega mýkt og viljann til að lyfta öllum á sama plan. Næstu þrjú ár gætum við því mögulega séð breytingar í reglugerðum til að aðstoða fólk án heimilis, hælisleitendur, fólk með fíkni- og/eða geðsjúkdóma og þá sérstaklega aðgengi að meðferðarúrræðum (langtímalausnir) og húsnæði (grunnþarfir).


drawing or collage with all sorts of flowers, a crescent moon and starry sky, all in fairly dark colours. on top of the image there's a white box with black text that reads "In an age of performative cruelty, kindness is punk as fuck. Be punk as fuck."

Satúrnus tekur að jafnaði um þrjú ár til að fara í gegnum hvert merki, og því er almennt talað um Satúrnus sem samfélagslega plánetu frekar en persónulega, sérstaklega þegar kemur að stöðu Satúrnusar í fæðingarkortinu okkar. En að sjálfsögðu hefur Satúrnus líka áhrif á hvert okkar sem einstakling, sérstaklega ef hán myndar stöður við plánetur eða punkta í kortinu okkar - og þá sérstaklega þær stöður sem eru túlkaðar sem erfiðar eða krefjandi (samhliða (conjunction), hornstaða (square) eða andstaða (opposition)). Til að fá hugmynd um hvað Satúrnus í Fisk mun þýða fyrir þig getur verið góð byrjun að skoða húsið sem Fiskurinn vakir yfir í kortinu þínu, og skoða þemu hússins með þemu Satúrnusar til viðmiðunar. Ef þú vilt fá frekari útlistun á því hvað það þýðir fyrir þig geturðu alltaf bókað lestur hjá mér, útlistun á lestrum og verð eru á heimasíðunni minni undir „Þjónusta“.

45 views0 comments

Comments


© Alda Örlygur Villiljós 2023. Aftur á heimasíðu.

bottom of page