top of page
Writer's pictureVilliljós

Stjörnuveðrið á Hinsegin dögum

Hinsegin daga vikan er gengin í garð og stjörnuspáin fyrir vikuna er nokkuð tíðindalítil, sérstaklega miðað við seinustu vikur og næstu vikur á eftir. Í raun ætti þetta að vera vika þar sem við hvílum okkur og hlöðum batteríin, en við hýrlingarnir viljum oft fara á móti straumnum svo við tökum auðvitað þessari áskorun frá alheiminum. Þó það sé í raun lítið að gerast þá eru undirtónarnir á fullu, enda var Merkúr að snúa sér í afturhvörf á sunnudaginn, örfáum klukkutímum eftir Nýju Tungli í Ljóni. 

Ný Tungl gerast þegar Sólin og Tunglið mætast á himnum og það markar oft upphaf nýrrar hringrásar sem nær hápunkti á Fullu Tungli. Í þeirri hlið stjörnuspeki sem skoðar daglegt líf á stærri skala (e. mundane astrology, ég hef þýtt sem veraldleg eða almenn stjörnuspeki) eru Ný Tungl mikilvæg, og ein og sér geta þau spáð fyrir um næsta mánuðinn fram að næsta Nýja Tungli. Þó að stöður plánetanna séu eins um allan heim á Nýju Tungli, þá eru húsin það sem gefur í skyn sérstaklega hvað muni gerast á hverjum stað fyrir sig. Á Íslandi beinir þetta Nýja Tungl sérstaklega athygli okkar á valdamikla einstaklinga og hópa hér á landi, en einnig á konur og kvenréttindi. Það passar sérstaklega vel miðað við að Halla Tómasdóttir tók við embætti forseta, æðsta embætti landsins, á dögunum, en Ljónsmerkið, Sólin og húsið sem þau sitja í í kortinu eiga öll við þjóðhöfðingja. 

Tunglstöðukortið boðar gott til mótmæla og kröfugangna, sem er einmitt það sem Gleðigangan er í grunninn. Rísandi Vog er annt um réttlæti og jafnrétti, en í þessu korti er Rísandi punkturinn umvafinn Suður Mánastöð og Lilith (e. Black Moon Lilith). Lilith er málsvari réttlætis og samstöðu með jaðarsettum hópum og hún getur risið upp með offorsi þegar á henni er troðið. Í Vog er þessi kraftur tempraður aðeins og hér á hún auðveldara með að tala við aðra á jafningjagrundvelli, semja um málamiðlanir og finna leiðir til þess að öll gangi sátt frá samningaborðinu. Það þýðir þó ekki að hún sætti sig við hvað sem er eða sé neitt kraftminni en annars! Aðrar stöður sem hafa áhrif á hana geta líka sýnt að það séu undiröldur óánægju í gangi, eins konar fyrirskjálftar, sem geta sprungið út þegar tíminn er réttur. 

Afturhvörf Merkúrs hafa áhrif alla vikuna og út ágústmánuð, en Merkúr fer að jafnaði í afturhvörf þrisvar á ári í u.þ.b. þrjár vikur í senn. Það eru oftast tímabil þar sem hlutir eins og samskipti, ferðalög, samningar og skipulag fer á mis. Þegar við vitum af því fyrirfram getum við þó gert ráðstafanir og haft það á bakvið eyrað að það eigi án efa eftir að koma upp tæknileg vandamál, fólk mætir seint, umferðin verður sérstaklega þung eða við misskiljum hvort annað. Svo lengi sem við munum þetta getum við passað að vera sérstaklega skýr í samskiptum, biðja fólk um að útskýra ef við erum ekki 100% viss, gefa smá auka tíma til að tvítékka á tækninni eða fyrir fólk að mæta, og leggja af stað snemma þegar við getum það. Afturhvörf Merkúrs gefa okkur líka tækifæri til þess að endurskoða hlutina og oft fáum við annan séns til þess að gera hlutina betur en áður. Afturhvörf fá okkur til að horfa aftur, gera aftur og reyna aftur þegar eitthvað tekst ekki í fyrsta skiptið - og stundum takast hlutirnir ekki almennilega fyrr en eftir að afturhvörfin eru búin. 

Á miðvikudaginn myndar Sólin sexundarstöðu við Júpíter og á aðfaranótt fimmtudags mætast Merkúr og Venus í Meyju. Þessar stöður ýta undir hátíðarskap vikunnar og þrátt fyrir afturhvörf Merkúrs geta þessir tveir dagar verið sérstaklega góðir til þess að tengja við annað fólk. Þetta á sérstaklega við um samfélagshópa sem við tilheyrum, eins og hinsegin samfélagið, svo ef þú ætlar að mæta á viðburði vikunnar þá mæli ég sérstaklega með miðviku- og fimmtudegi til þess. 

Gangan sjálf verður án efa sérstaklega glæsileg, því Miðhimininn, hæsta staðan í kortinu og sá partur sem sést best, er í Ljóni, sem kann svo sannarlega að gera hlutina glæsilega og glam. 

Í gegnum vikuna eru aðrar stöður að undirbúa sig í kortinu sem munu koma með látum inn næstu vikurnar, og við munum finna fyrir þeim að einhverju leyti í gegnum vikuna. Sum okkar munu finna þörf til að vera alveg á útopnu og missa sig í gleðskapnum á meðan sumum okkar mun líða eins og það sé verið að halda aftur af okkur eða við séum ekki tilbúin til þess að sleppa af okkur taumnum. Óvæntar tilfinningar eða samtöl munu eiga sér stað fyrir mörg okkar og við þurfum að díla við það á eins yfirvegaðan hátt og við getum. Það er mikilvægt að taka sér tíma til þess að hugsa áður en við segjum hlutina, og leyfa öðrum að njóta vafans, a.m.k. þangað til þau hafa útskýrt hlutina aftur.

Verum nú góð við hvort annað, og gleðilega Hinsegin daga!


a screenshot of a twitter post from @solomongeorgio on a rainbow background. post reads: A friendly reminder that if being gay was a choice, I'd choose to be gayer.

17 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


© Alda Örlygur Villiljós 2023. Aftur á heimasíðu.

bottom of page