top of page

Sól varp sunnan,
sinni mána,
hendi inni hægri
um himinjöður;
sól það né vissi
hvar hún sali átti,
stjörnur það né vissu
hvar þær staði áttu,
máni það né vissi
hvað hann megins átti.
(Völuspá)

Frá örófi alda hafa forverar okkar horft upp í næturhimininn og velt fyrir sér stjörnunum, stöðum þeirra, reiknað út gang þeirra og, þar til tiltölulega nýlega, tengt hreyfingar á himnum við hreyfingar hér á Jörðinni. Á einhvern hátt er hægt að lesa spegilmynd okkar þar uppi, sem leiddi til þess að lögmál margra hermetista og dulspekinga fyrri alda var að það sem er fyrir ofan er eins og það sem er fyrir neðan; og það sem er fyrir neðan er eins og það sem er fyrir ofan. Þetta er þekkt í aðeins styttri útgáfu á ensku sem "As above, so below."

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stjörnuspeki en fór að læra hana af fullum krafti árið 2018 og hef verið nær óstöðvandi síðan í leit minni að meiri þekkingu. Því meira sem ég læri, því meira átta ég mig á því hversu lítið ég veit, því stjörnuspekin hefur óteljandi lög sem er hægt að tengja saman á svo ótal marga vegu. Sérstaklega hef ég heillast af endurfæðingu hellenískra stjörnuspekifræða​ og þó ég telji með þær reikistjörnur og smástirni sem við höfum fundið í seinni tíð nýti ég mikið af tækni og útreikningum sem forngrikkir þróuðu og hefur að því er virðist ekki þurft að taka neinum breytingum til þess að virka enn. Einnig er ég undir einhverjum áhrifum frá nútíma- og sálfræðilegri stjörnuspeki og ég nýti mikið af þeim tólum sem ég hef lært í minni eigin sálrænu meðferðum og í gegnum þekkingu vina minna og meðferðaraðila til þess að aðstoða skjólstæðinga mína til að finna styrkleika sína og sjálfsstæði. 

Hvert einasta stjörnukort er alveg einstakt, og því þurfum við öll mismunandi úrræði og aðstoð í gegnum lífið. Í gegnum kortið get ég séð hvar styrkleikar þínir liggja, hvaða einstöku eiginleika þú hefur og hvað getur hjálpað þér til þess að komast í gegnum erfiða tíma eða til að öðlast betri stjórn á tilfinningum. 

Nálgun mín er hinsegin, þolendavæn og tekur tillit til skörunar forréttinda og jaðarsetningar. Markmið mitt er að búa til öruggara rými þar sem þú færð að upplifa sjálfsstyrkingu, virðingu, öryggi og að á þig sé hlustað. Ég hef sérstaklega mikla reynslu af að lesa fyrir fólk sem er þegar í djúpri sjálfsvinnu, aktívista, andlega og/eða pólitískt þenkjandi en er að sjálfsögðu opið fyrir öllum sem hafa áhuga eða finna fyrir þörf fyrir öðruvísi sjónarhorn eða spegil til þess að máta sig við. 

ccc3_DSC0645.png

Ég er fætt 1988 og uppalið á Íslandi, en flutti til London mánuði fyrir hrun 2008 fyrir háskólanám. Eftir að ég kláraði BA gráðu í listljósmyndun frá Kingston háskólanum bjó ég í London í ár og flutti síðan til Stokkhólms í u.þ.b. tvö ár.

 

Árið 2014 neyddist ég til að flytja aftur til Íslands vegna heilsufarsvandamála og hef verið sátt hér síðan þá. Strax og ég kom aftur heim fór ég af fullum krafti í hinsegin aktívisma, en ég kynnti fornafnið hán fyrir íslendingum, stofnaði mjög óformleg samtök fyrir kynsegin fólk á Íslandi, tók þátt í stofnun Hinseginspjallsins og tók virkan þátt í starfi Samtakanna '78 og seinna Trans Íslands. 

Vegna langvinna heilsufarsvandamála hef ég aðallega unnið sjálfstætt í gegnum árin, sem aktívisti, ljósmyndari, matvælaframleiðandi, plötusnúður og stjörnuspekingur, meðal annarra verkefna. 

Auk stjörnuspekinnar er ég að læra seið, og ég vinn mikið með forverum mínum, land- og staðarvættum sem og norrænum goðum. Ég hef mikinn áhuga á tengingum milli stjarnanna og forn-norrænna hugmynda um heiminn, því það hlýtur að teljast hæpið að norrænir forverar okkar hafi ekki tengt sögur sínar við himingeiminn þegar nánast allir aðrir menningarheimar gerðu það á einhvern hátt. 

© Alda Örlygur Villiljós 2023. Aftur á heimasíðu.

bottom of page