Píratar á tímamótum
- Villiljós

- 60 minutes ago
- 4 min read
Í dag kusu Píratar sinn fyrsta formann síðan flokkurinn var stofnaður fyrir rétt rúmum þrettán árum. Valið stóð á milli tveggja trans manneskja, þeirra Alexöndru Briem og Oktavíu Hrundar en Oktavía skar sigur úr býtum. Þetta markar ekki bara tímamót í sögu flokksins heldur á heimsvísu, því Oktavía er fyrsta kvárið til að taka formannssæti stjórnmálaflokks á Íslandi og mögulega á heimsvísu ¹.
Veraldleg stjörnuspeki er undirgrein stjörnuspeki sem skoðar stjörnukort fyrir viðburði, félög, stjórnmálafólk og aðra einstaklinga og hópa sem hafa áhrif á söguna. Kortið fyrir stofnun Pírata tekur mið af tímasetningu stofnfundarins, sem var klukkan 14 þann 24. nóvember 2012. Það er ýmislegt áhugavert við stofnkortið sjálft, en hér ætla ég aðallega að skoða það í samhengi við hreyfingarnar sem áttu sér stað í dag.

Síðustu vikur hefur stór vatns-þrenna (e. grand water trine) verið áberandi í stjörnunum, en hún hefur myndast milli Júpíter í Krabba, Satúrnusar (og Neptúnusar) í Fisk, og hraðari hreyfingum Mars, Merkúrs, Sólarinnar og Venusar í Sporðdreka. Í hvert sinn sem hraðari pláneturnar fara yfir seinustu sex gráður Sporðdrekans hafa þær bært þessa þrennu, og um leið hafa þær dregið inn Norður Mánastöð Pírataflokksins, sem er á 26° í Sporðdreka. Norður Mánastöðin er aðallega notuð í veraldlegri stjörnuspeki sem merki um Tungl- og Sólmyrkva, en Píratar voru stofnaðir undir Tunglmyrkva í Tvíbura. Myrkvar eru alltaf merki um stórar breytingar í veraldlegri stjörnuspeki svo að þó að við séum ekki í Myrkvatíð núna kemur ekki á óvart að Mánastöð Pírata hafi verið í miðjunni á þessum hreyfingum í gegnum síðustu vikur á meðan þessi stóra breyting á stjórnarfyrirkomulagi þeirra átti sér stað. Ákvörðunin um breytingar á uppbyggingu flokksins áttu sér svo stað á aðalfundinum, sem var á Sólmyrkva í Meyju í níunda húsi flokksins.
Í dag er Merkúr að snúa sér við eftir afturhvarf sitt gegnum Bogamann og Sporðdreka, en þegar stjörnur snúa sér í eða úr afturhvörfum virðast þær vera stopp á himnum í lengri tíma, og þá verða áhrif þeirra einstaklega mikil. Það er áhugavert að sjá að Merkúr er ekki einungis að stansa aðeins tveimur gráðum frá Merkúr stofnkortsins, heldur er Merkúr í stofnkortinu líka nánast stopp þar sem pláneta samskipta og skipulags sneri sér úr afturhvörfum aðeins tveimur dögum eftir stofnun flokksins. Slík endurtekning ýtir undir mikilvægi fundarins í dag og setur það í samhengi að fundurinn í dag er önnur tilraun til formanskosninganna, en fyrsti fundurinn fyrir um mánuði síðan var dæmdur ólöglegur vegna mistaka í fundarboði. Merkúr vildi greinilega fá að vera í aðalhlutverki þessa fundar!
Þegar flokkurinn var stofnaður var Neptúnus nýbyrjaður að fara í gegnum merki Fisksins, en í ár hefur þessi hæga pláneta tekið sín fyrstu skref inn í næsta merki, Hrútinn. Það tekur Neptúnus u.þ.b. 164 ár að fara heilan hring í gegnum dýrahringinn, og um 13-14 ár í hverju merki. Neptúnus er reyndar í stóru hlutverki fyrir okkur öll þessa dagana á meðan hann færir sig hægt og rólega í Hrútsmerkið, því hann gerir það samhliða Satúrnusi, sem tekur u.þ.b. 2-3 ár að fara í gegnum hver merki. Á sama tíma eru Úranus og Plútó líka að færa sig yfir í ný merki (Tvíbura og Vatnsbera), svo að allar ytri pláneturnar eru að skipta um umhverfi á sama tíma. Þess vegna hafa árin 2024-26 verið mörkuð sem ár gríðarlegra samfélagsbreytinga um allan heim og stjörnuspekingar hafa lengi beðið eftir og fylgst með þessum breytingum með óþreyju. Það passar einstaklega vel að Píratar hafi verið stofnaðir þegar Neptúnus fór í Fiskmerkið með flötum strúktúr, því erkitýpa Fisksins líður mun betur í slíku umhverfi, þar sem valdastrúktúrinn er flatur eða a.m.k. ekki bein lína. Nú þegar Neptúnus og Satúrnus fara samferða í merki Hrútsins, sem er mun líklegri til þess að vilja skýra valdadýnamík og fyrirmyndir til þess að fylgja, í fjórða hús flokksins sem er undirstaðan í kortinu, er kominn tími til þess að breyta uppbyggingu flokksins. Ég geri ráð fyrir að tími Satúrnusar í Fisksmerkinu (síðan febrúar 2023) hafi gert þessa þörf sífellt meira áberandi.
Á seinasta ári datt flokkurinn út af þingi í nokkuð óvæntum niðurstöðum Alþingiskosninga, en hefur áfram verið áberandi í starfi Reykjavíkurborgar. Stuttu fyrir kosningarnar fagnaði flokkurinn tólf ára afmæli, en í stjörnuspeki markar það byrjun árs undir áhrifum fyrsta hússins. Fyrsta húss ár eru oft áberandi, hvort sem það er fyrir fólk eða viðburði, og oft förum við í mikla sjálfsskoðun og jafnvel endurfæðingu á þeim árum. Píratar eru með rísandi Steingeit en auk þess með bæði Plútó og Mars á upprisunni, sem gerir það að verkum að flokkurinn hefur oft átt erfitt með sjálfsmynd sína, sérstaklega út á við. Sem flokkur án klassískra valdastiga sem skilgreinir sig ekki eftir hægri-vinstri ásnum hafa áherslur flokksins oft verið breytilegar og jafnvel óskýrar út á við. Á þrettánda afmæli sínu hófst ár sem mun vera undir áhrifum annars hússins og það er einstaklega viðeigandi fyrir það hús að flokkurinn sé að byggja upp reglulegri strúktúr sem mun án efa skerpa áherslur og gildi flokksins. Annað húsið í kortinu er í Vatnsbera, annað Satúrnusarmerki, en Vatnsberi er dagtímamerki Satúrnusar svo það eru meiri líkur á að þetta ár verði aðeins auðveldara fyrir flokkinn en það seinasta.
Þessi póstur byrjaði sem lítill póstur á Bluesky sem vatt síðan upp á sig þar til ég ákvað að hann þyrfti að verða að almennilegum pósti hér. Endilega látið vita ef þið höfðuð gaman að þessum lestri og þá reyni ég að skrifa oftar hér um veraldlega stjörnuspeki, eða ef þið viljið heyra meira um hreyfingarnar sem eru að ganga yfir.
Helstu heimildir fyrir þennan póst voru fréttir sem ég setti inn sem hlekki í textanum, og bókin Mundane Or National Astrology eftir H.S. Green (1911).
¹ Ég hef a.m.k. ekki getað fundið upplýsingar um önnur kvár eða trans fólk sem hefur verið kosið í formannssæti virkra stjórnmálaflokka en hef ekki kafað ákaflega djúpt svo ég tek við ábendingum og leiðréttingum!





Comments