Veturnætur
- Villiljós

- 5 days ago
- 3 min read
Í dag og á morgun eru veturnætur samkvæmt gamla íslenska dagatalinu. Í því dagatali voru árstíðirnar aðeins tvær; sumar og vetur. Hvor árstíð, eða misseri, voru talin í vikum og byrjaði vetrarmisserið alltaf á laugardegi en sumarmisserið á fimmtudegi. Enn í dag höldum við upp á fyrsta sumar- og vetrardag á þessum vikudögum. En ef sumarið endar á miðvikudegi og veturinn byrjar á laugardegi, þá verða fimmtu- og föstudagurinn þar á milli að einhvers konar millibilsástand, eða jaðarrými (e. liminal space). Slík rými sveipast alltaf ákveðinni dulúð, því þau marka rými sem eru utan þess daglega og „venjulega,“ geta jafnvel tengst inn á önnur svið tilverunnar líkt og þegar álfar flytjast búferlum, dýrin tala mannamál og andar hinna framliðnu geta gert vart við sig. Það er engin tilviljun að veturnætur skuli gerast á svo svipuðum tíma og Hrekkjavakan, Allrasálnamessan og Dagur hinna dauðu (s. dia de los muertos), sem eru öll skilgreind sem millibilsástand. Andreas Nordberg telur reyndar að Veturnætur hafi áður fyrr verið reiknuð út frá fyrsta fulla tungli eftir fyrsta nýja tungl eftir haustjafndægur, sem myndi setja það á fimmta nóvember í ár, þar sem haustjafndægur í ár voru aðeins um sólarhring eftir nýtt tungl, en er vanalega nær þeirri dagsetningu sem við þekkjum enn í dag.
Veturnáttablót voru greinilega mikilvæg forverum okkar, því það er oft minnst á þau í fornsögum og öðrum heimildum. Þetta er sá tími árs þegar síðustu slátranir voru framkvæmdar og því var mikið af ferskum mat sem var hægt að njóta. Það er líka líklegt að þeim hafi þótt mikilvægt að blóta veturinn til að biðja um minni vetrarhörku og öryggi gegn veðri og vindum. Dísirnar eru stundum tengdar þessum blótum en þær hafa líklega tengst forverum og verndargyðjum fólks, svo að tengingin við forvera og hina látnu hefur verið hér líka.
Sólin færist yfir í Sporðdrekamerkið á þessum árstíma, en það merki tengist meðal annars dauðanum. Í hlaðvarpsþætti Threads of Fate um Sporðdreka og dauðann, Death and Scorpio: Do You Guys Ever Think About Dying? spjalla Kira Ryberg og Ashley McQuaid um þessa tengingu. Sporðdreki er vatnsmerki og er kyrrt (e. fixed), en þegar vatn er mjög stillt geta myndast bakteríur sem stuðla að niðurbroti lífrænna efna. Stillt vatn getur líka myndast þegar það frýs og því er það vel við hæfi að tímabil Sporðdrekans byrji í kringum fyrsta vetrardag á norðurhveli jarðar.
Í Reykjavík hefur dagurinn verið stilltur og kaldur. Kvennafrídagurinn er á morgun og tilfinningin er sú að í dag sé lognið á undan storminum. Í stjörnunum er yfirstandandi vatnsþríleikur en Merkúr, Mars, Júpíter og Satúrnus eru öll í vatnsmerkjum (Sporðdreka, Krabba og Fisk) í kringum 21-26°. Þannig mynda þessar plánetur þríhyrning eða þrennu í kringum jörðina sem hvetur okkur öll til þess að horfast í augu við tilfinningar okkar, flæði vatnsins og það sem við eigum öll sameiginlegt. Samspil þeirra getur speglast í aukinni samúð og samheldni, sem er að mínu mati eitthvað sem við þurfum virkilega á að halda í samfélagi sem hefur seinustu áratugi sett vaxandi áherslu á einstaklingshyggju og þarfir sjálfsins þvert á þarfir samfélagsins. Þá er við hæfi að horfa aftur um öxl til forvera okkar sem vissu vel að til þess að lifa af var nauðsynlegt að fólk ynni saman að sameiginlegu markmiði, annars var hætta á að það yrði ekki nægur matur til út veturinn. Þó að við búum ekki við sama mataróöryggi í dag þá er það ennþá þannig að við þurfum á öðru fólki að halda til þess að lifa góðu lífi. Það er okkur lífsnauðsynlegt að hjálpa hvort öðru og finna fyrir samheldni með öðru fólki og það mun ekki gerast á meðan við komum fram við einhverja hópa samfélagsins sem minna virði eða fórnanlega.
Að því sögðu er rétt að minna á að þjóðarmorðið í Palestínu er enn yfirstandandi og palestínubúar þurfa ennþá á aðstoð að halda, hvort sem það er fjárhagsleg aðstoð, að halda málefnum þeirra á lofti eða að minna stjórnhafa um allan heim á að okkur ber skylda til þess að aðstoða þau eftir fremsta megni og slíta öllu opinberu samstarfi við Ísrael. Ég hvet ykkur til þess að halda áfram að fylgjast með og hjálpa eftir fremsta megni. Á síðunni Protect Palestine er til dæmis hægt að fá ýmsar hugmyndir og hér á Íslandi er gott að fylgjast með Félagi Ísland-Palestínu og No Borders — meðal annars er mikilvægt að finna samtökin á samfélagsmiðlum sem þið notið og stilla þannig að þið fáið áminningu um pósta frá þeim, þar sem flestir samfélagsmiðlar fela efni tengt Palestínu vísvitandi.
Gleðilegar veturnætur og megi veturinn vera okkur öllum góður.
Helstu heimildir:
Saga daganna eftir Árna Björnsson (1980)
The Nordic Animist Year eftir Rune Hjarnø Rasmussen (2021)
Íslenskt almanak vefsíðan, sérstaklega síðurnar um Veturnætur og Gormánuð
Jul, disting och förkyrklig tideräkning eftir Andreas Nordberg (2006)





Comments