top of page
Writer's pictureVilliljós

Óður til anímisma

Andatrú, vættahyggja, náttúrudýrkun - einhvern veginn eru þessi orð öll svo takmörkuð til að lýsa því hvernig ég sé heiminn. Í þættinum Animism is Normative Consciousness í hlaðvarpinu The Emerald (1) talar Joshua Schrei um það hvernig anímismi - hugtakið sem þessi þrjú orð eru tilraun til þýðingar á - er svo eðlislægur mannfólkinu að það er í raun skrítið að eiga sérstakt orð yfir það, hvað þá orð sem reynir að búa til pól á milli þess sem er lifandi og þess sem er dautt. Frá örófi alda hefur mannfólkið verið anímistar og það er ekki nema mjög nýlega (sögulega séð) sem kapítalismi og vísindahyggja hafa reynt að útrýma þessari heimssýn, með katastrófískum afleiðingum. En hvað er þetta hugtak sem er svo erfitt að nefna almennilega?

Anímismi er sú tilfinning, trú eða fullvissa að allt í heiminum sé í raun lifandi. Við vitum að mannfólk og dýr eru lifandi, og öll þau sem hafa umgengist eða ræktað plöntur hljóta að vera sammála um að plöntur eru lifandi, því þær vaxa, nærast, búa til afkvæmi, deyja og lifna aftur við. Sveppir fara í gegnum það ferli líka, og með rannsóknum á mýsli vitum við að sveppir, sem og alls konar gróður, hefur háþróuð og flókin samskipti í gegnum mýslið - eitt tré getur t.d. á mjög stuttum tíma sent skilaboð til allra trjáa skógarins til þess að vara við ágengum skordýrum, svo að skyndilega byrja öll trén að framleiða efni sem eitrar náttúrulega fyrir skordýrunum eða gerir trén óæt fyrir þeim. (2) Jarðvegurinn er hluti af þessu ferli, enda hýsir jarðvegurinn sveppavefinn og sendir rétt efni til þeirra plantna sem koma rótum sínum fyrir í honum - og iðar einnig af alls konar lífi sem endurnýjar sig í sífellu, tekur við úrgangi og umbreytir honum í áburð sem stuðlar að nýju lífi.


Hringrásardýrkun?


Jarðvegurinn getur verið mold, sandur eða steinar, og samt verið fullur af lífi. Ef við skoðum síðan stærri jarðvegsmyndanir - fjöll, kletta, bergmyndanir - þá er allt í einu ekki svo stórt stökk að sjá lífið í þessum stórkostlegu verum. Það hreyfist mun hægar en við erum vön því að hugsa um hlutina, en jörðin undir fótum okkar er þó í sífelldri breytingu, endurnýjun og hreyfingu. Fjöll myndast og breytast, grjót fellur niður og myndar nýja jarðmynd í rótum fjallsins, jarðflekar kippast til og skrapast hvor við annan til að hleypa upp ólgandi hrauni sem breytist síðan í nýja jörð sem breytist og ummyndast aftur og aftur.


Ummyndunartrú?


„Þá veit [steinninn] ennþá meira en ég hélt, því að steinar, sem standa út af fyrir sig, geta séð það, sem gerist allt í kringum þá. En steinar, sem eru bundnir í klettabelti, sjá aðeins fram fyrir sig. Hann getur samt verið milljóna ára gamall, fyrst milljónir ára bandingi í klettabelti, so hundruð eða þúsundir ára sjálfstæð vera á klettarák eða bergbrún. Er ekki allt líf sona, fyrst eitthvað í einu lagi, svo eitt sér? So aftur í einu lagi?“ [...] „En er þetta ekki vitleysa í mér? Getur það verið, að steinninn hafi staðið þarna í þúsund ár? Að hugsa sér! Að standa í sömu stellingum í þúsund ár. Hvílík eilífð er líf steinsins! En kannski finnst steini ekki lengra að standa í þúsund ár í fjallshlíð en okkur að standa þar í þúsund sekúndur.“ (Þórbergur Þórðarson)

Að fá tækifærið til að sækja heim náttúrufyrirbæri fær öndina oft til að standa í hálsinum á mér. Eins og að ganga eftir slóða í birkiskógi og trén opnast skyndilega í rjóður sem sólin gægist inn í til að skína á stóran stein í miðju rjóðrinu - hvað ætli hann hafi setið þarna lengi að horfa allt í kringum sig? - eða ganga upp hæð og skyndilega kemur í ljós handan hæðarinnar fallegasti, tærasti og söngelskasti foss sem ég hef nokkurn tímann séð - eða klöngrast upp hæð með ekkert nema mosa og steina fyrir framan mig þar til ég kem á toppinn og sé loksins útsýnið yfir allan heiminn fyrir neðan mig.

Ef þú situr og rýnir í [mosann / fjörusandinn / pollinn í skurðinum / stráin í móanum / flétturnar í berginu] nógu lengi sérðu fljótt hversu mikið líf er til staðar. Hvernig er hægt að segja að nokkuð af þessu sé „dautt“ - “inanimate”?


Andaktarfýsn?


Á seinustu öldum hafa vestræn vísindi reynt að sannfæra okkur um að náttúran sé ekki lifandi, að hún sé bara „hlutur;“ að önnur dýr séu meira eins og hlutir en eins og við; og að við mannfólkið, sem einhvers konar æðri verur, eigum rétt á því að gera hvað sem við viljum með heiminn í kringum okkur (sama rökfærsla hefur svo auðvitað verið notuð til að réttlæta þrælahald og önnur yfirráð hvíts fólks yfir öðru fólki með því að líkja lituðu fólki við dýr eða hluti). Sem betur fer er þessi hugsun hægt að breytast, sérstaklega með tilkomu skammtafræði og aukins vilja til að hlusta á kunnáttu frumbyggja víðsvegar um heiminn. Vísindin eru í raun og veru sammála anímisma um margt, t.d. að jörðin sé á hreyfingu; að landslag breytist; að plöntur eigi samskipti sín á milli; og að heimurinn sé fullur af ósýnilegum verum sem hafa áhrif á líf okkar. Vísindin kalla þessar verur örverur, bakteríur og öðrum nöfnum meðan anímismi kalla þær vættir, anda, sál alls í kringum okkur. Vísindahyggjan, eins og mörg eingyðistrúarbrögð í gegnum tíðina, gerir lítið úr því hvernig aðrir hópar skilgreina heiminn og heldur því statt og stöðugt fram að hennar leið sé hin eina rétta. Ein algeng mýta sem hefur þannig tekið sér bólfestu er sú að forverar okkar hafi búið til sögur um umheiminn vegna þess að þau skildu ekki hvernig heimurinn virkaði, og því sé jafnvel best að henda þeim sögum algerlega út.


Forverar okkar skildu heiminn alveg. Þau skildu að það þarf að gefa jarðveginum pásu og planta mismunandi uppskerum á milli ára. Vísindin gáfu lítið fyrir það þar til þau gátu komið með sína eigin útskýringu á því að með því að sá alltaf fyrir sömu uppskeru á sama stað nýtir upp of mikið af einni tegund af næringarefnum í jarðveginum og veldur óreglu - eftir að við höfðum eyðilagt heilmikið af jarðvegi og valdið hungursneyðum því við vildum ekki hlusta á „hjátrú“ (3). Þau vissu að þegar dýrum var slátrað var betra að gera það við þannig skilyrði að dýrin væru róleg og óhrædd. Vísindin segja okkur loksins að hræðsla og kvíði framkalli adrenalín og önnur efnasambönd í líkamanum sem hefur slæm áhrif á gæði kjötsins (4). Þau vissu að þegar næturfrost entist fram yfir sumardaginn fyrsta yrði uppskera sumarsins góð, því að þegar ræktin byrjar ekki að vaxa fyrr en liðið er á vorið mun hún vaxa hraðar og verða mun þykkari, með fæðuefnunum pakkað þéttar saman heldur en ef hún hefur of langan tíma til að vaxa (5). Forverar okkar bjuggu til sögur í kringum þessi „vísindalegu“ sannindi til þess að geta auðveldlega komið þeim fyrir í samfélagslegu minni og svo að næsta kynslóð eða fólkið á næsta búsvæði þyrfti ekki endalaust að finna upp hjólið og gera ógrynni af mistökum til þess að læra hvernig væri best að lifa af. Við segjum sögurnar á aðeins öðruvísi hátt, en við erum ennþá að segja sögur með sama tilgang og áður, hvort sem við tölum um boðefni og vaxtarhraða í kornræktun eða að frostskán í skel af vatni að morgni sumardagsins fyrsta boði gott. Báðar sögurnar eru sannar og við getum útskýrt þær með vísun í hvor aðra.


Bæði/og-hyggja?


Sögur frumbyggja í Eyjaálfu sem hafa gengið í munnmælum í þúsundir ára eru loksins skoðaðar í dag af einhverri alvöru af vísindafólki, og þær hafa sýnt fram á að þau hafa viðhaldið þekkingu á stjörnunum sem geta sýnt með mikilli nákvæmni hvernig stjörnurnar á himnum hafa breyst, orðið til eða horfið í gegnum árþúsundin. (6) Forverar okkar gátu horft til himins eða út til sjávar og sagt til um veðurfar, hvenær væri best að sá ákveðnum fræjum og til að rata á ferðalögum og siglingum. Þeim fannst ekkert eðlilegra en að sjá heiminn sem lifandi veru/r sem við búum í samlyndi með. Með því að tala um restina af heiminum sem „dauðan“ verður auðveldara fyrir okkur að „nota“ hann, jafnvel misnota og eyðileggja.


Lífhyggja?


Í aldanna rás hefur mannfólkið vitað að býflugur eru mikilvægar fyrir frævun gróðurs, og við höfum lengi haldið býflugnabú þar sem býflugurnar frjóvga blómin og framleiða auk þess hunang sem við njótum góðs af. Með ofsafenginni fjöldaframleiðslu og græðgi hefur samlífi við býflugurnar þróast á þann hátt að þær eru látnar fljúga um baneitraða, manngerða akra til þess að finna blóm og látnar lifa í manngerðum búum í stað þess að fá að byggja sér sín eigin bú - það er þegar þær eru ekki drepnar í rannsóknum til þess að þróa ný efni og tækni til þess að rækta sífellt meira og hraðar. Nýjar rannsóknir benda til þess að býflugur finni flóknar tilfinningar og geti jafnvel þróað með sér kvíða og áfallastreituröskun. (7) Ég leyfi mér að fullyrða að þetta komi fáum anímistum á óvart.


Tilfinningahyggja?


„Andstaðan við töfra hefur alltaf fylgt þróun kapítalismans, alveg fram á þennan dag. Töfrar byggjast á þeirri trú að heimurinn sé lifandi, óútreiknanlegur og að það sé kraftur í öllum hlutum [...]. En í augum nýu kapítalísku stéttarinnar var þessi anarkíski, samtvinnaði skilningur á dreifingu valds í heiminum eins og eitur. Til þess að stjórna náttúrunni í nafni kapítalískrar vinnuskipulagningar þurfti að afneita ófyrirsjáanleika töfranna, og möguleikanum á að geta verið í þýðingarmiklu sambandi við náttúruöflin [...]. Til þess að drottna yfir veröldinni varð að afmá töfra hennar fyrst.“ (Silvia Federici, þýðing mín)

Við mannfólkið erum líka full af alls konar lífi, alveg eins og trén, fossarnir eða jarðvegurinn. Við lifum samlífi með ótal góðgerlum, bakteríum og örverum sem lifa með okkur og hjálpa okkur að lifa af í heiminum. En við lifum líka í samlífi með öðru mannfólki, dýrum og náttúru. Þegar þú finnur fyrir því að það sé allt lifandi í kringum þig, að þú sért hluti af risastórri og margslunginni hringrás, verður erfiðara að misnota umhverfið og náttúruna í kringum þig. Það verður mun náttúrulegra og einfaldara að ganga um heiminn með virðingu, umhyggju og heilbrigð samskipti að leiðarljósi - heilbrigð samskipti við annað fólk, við dýr, við plöntur og við jörðina.


Samskiptafýsn?


Á Íslandi er anímismi ótrúlega ríkur partur af viðhorfi okkar, þó við köllum hann ekki endilega því nafni. Mörg okkar þola ekki þegar minnst er á hversu algengt það er að fólk hér trúi á huldufólk, en sannleikurinn er samt sá að ótrúlega mörg okkar trúa a.m.k. rétt svo nógu mikið til að vilja ekki taka sénsinn á að styggja þessar verur sem búa í hrauni, klettum og steinum. Náttúran hér hjálpar, því það er svo mikið líf í henni - jarðflekarnir hér eru á sífelldri hreyfingu, hverir blossa upp, jörðin titrar og öldugangur sjósins dáleiðir. Klettar standa upp úr jörðinni út um allt landið sem minna á fólk eða tröll á vappi og mosavaxið hraunið felur ótal leyndarmál. Næst þegar þú ferð út fyrir byggð, stoppaðu á einhverjum nýjum stað - úti í vegarkanti eða við útsýnispall - og labbaðu eins langt og þú getur í burtu frá veginum. Kynntu þig fyrir náttúrunni með fullu nafni og spurðu hvort þú megir aðeins sitja þar og finna fyrir fegurðinni sem er þar. Leggðu lófana í jörðina eða á stein og andaðu djúpt. Ég hef fundið að ef ég hrósa náttúrunni finn ég enn meira fyrir lífinu í henni - svo segðu náttúrunni endilega hvað þér finnst um fegurð hennar. Finndu fyrir því hvernig hún titrar af ánægju og fylgstu með fjöllunum, kjarrinu, mosanum eða steinunum ummyndast í verur sem heilsa þér og bjóða þig velkomið. Mundu að þakka fyrir þig og kveðja þegar þú ferð.





Heimildir:


Bækur

Silvia Federici, Caliban and the Witch: Women, the Body and Primitive Accumulation (2004)

Þórbergur Þórðarson, Steinarnir tala (1956)


Annað lesefni sem hafði óbeinni áhrif á þessi skrif


  • Tyson Yunkaporta, ​​Sand Talk: How Indigenous Thinking Can Save the World (2019)

  • Joshua Schrei, The Emerald (hlaðvarp), Inanimate Objects Aren't Inanimate (Or Objects) (2023)

  • Ýmsar þjóðsögur - ég mæli sérstaklega með bókum sem segja þjóðsögur frá ákveðnum stöðum, t.d. Þjóðsögur við Þjóðveginn (Jón R. Hjálmarsson), Álög og bannhelgi (Árni Óla) og appið Kringum (https://kringum.is/).

  • Náttúran og allar hennar vættir, sérstaklega á Suður- og Austurlandi þar sem ræturnar mínar tengja mig alltaf sterkast.


7 views0 comments

Comments


© Alda Örlygur Villiljós 2023. Aftur á heimasíðu.

bottom of page