top of page
Writer's pictureVilliljós

Hvað er stjörnuspeki?


Stjörnuspeki er mörg þúsund ára gömul grein sem gengur út frá þeirri forsendu að það sé einhvers konar samhengi milli okkar mannfólksins og umheimsins í kringum okkur. Í Smaragðstöflunni (e. The Emerald Tablet) er áhersla lögð á að það sem er fyrir ofan er líkt og það sem er fyrir neðan; og það sem er fyrir neðan er líkt og það sem er fyrir ofan¹. Þessi setning vísar bæði til samhengis á milli þess sem gerist á jörðinni og þess sem gerist í himingeimnum, sem og samhengis á milli hins andlega og hins líkamlega. Við vitum öll að Sólin hefur áhrif á árstíðir á jörðinni, og að Máninn hefur áhrif á sjávarföll. Mörg okkar finna fyrir mun á líðan okkar eða hegðun í kringum Full eða Ný Tungl, og í gegnum aldirnar hafa ræktendur sáð og uppskorið eftir fyllingu Tunglsins. Stjörnuspekin tók þessa hugmynd lengra, og í vel yfir 4000 ár² hafa stjörnuspekingar fylgst með því hvernig hreyfingar himintunglanna spegla hreyfingar á jörðinni, bæði í gegnum stórar, samfélagslegar hreyfingar sem og einstaklingsbundnar hreyfingar í lífi hvers og eins. Dr. Richard Tarnas, í bók sinni Cosmos and Psyche, rekur vel hvernig stjörnuspeki, sérstaklega í stærra samfélagslegu samhengi, virðist spegla jarðlífið á ótrúlega nákvæman hátt.³ Við vitum það ekki ennþá hvernig hægt væri að útskýra þessa speglun á vísindalegan máta líkt og við getum í dag útskýrt áhrif Tunglsins á sjávarföll eða gang hnattanna um Sólina, en strax og við förum að skoða stjörnuspeki af einhverri alvöru verður það augljóst að það er einhver tenging þarna á milli. Það er síðan undir okkur sjálfum komið hvernig við túlkum þessa tengingu og hvaða, ef nokkra, merkingu hún gefur okkur.



Mörg okkar sem hafa kafað dýpra í þessi fræði hafa á einhverjum tímapunkti rekið sig á vegg þegar hin sígilda spurning vaknar; ef gangur himintunglanna hefur áhrif á líf okkar, og gangur himintunglanna er útreiknanlegur og taktfastur, þýðir það þá að líf okkar er nú þegar ákveðið? Höfum við í raun enga stjórn á eigin lífi eða örlögum? Og ef við höfum einhverja takmarkaða stjórn, hvað ef við tökum „ranga“ ákvörðun og breytum framtíð okkar til hins verra? Er þá ekki betra að vita ekki neitt? Þetta eru spurningar sem hvert og eitt okkar þarf að svara fyrir sig, og að sjálfsögðu er stjörnuspeki ekki fyrir öll. Sem dæmi getur stjörnuspeki verið bókstaflega heilsuspillandi fyrir fólk sem upplifir mikla þörf fyrir stjórn á eigin örlögum, kvíða þegar kemur að því að vilja vita hvað mun gerast eða óstjórnlegri eftirsjá yfir fortíðinni. Stjörnuspekin getur verið mjög hjálpleg fyrir slíkt fólk líka, en þá þarf að passa að nálgast hana á réttan hátt og á réttum forsendum fyrir einstaklinginn. Stjörnuspeki hefur líka verið ranglega notuð til þess að kúga fólk eða reyna að stjórna lífi einstaklinga út frá kortinu þeirra, sem ber að fordæma.

Persónulega tel ég að við höfum afvegaleiðst í hugmyndum okkar um örlög sem samfélag. Hugmyndin um frjálsan vilja hefur orðið að einhvers konar tvíhyggju þar sem við höfum annað hvort fullkomlega frjálsan vilja og það er ómögulegt að segja fyrir um framtíðina; eða að framtíðin sé meitluð í stein og við lifum einungis í tálmynd um frjálsan vilja. Við vitum samt að það er hægt að spá fyrir um framtíðina, til dæmis getum við spáð fyrir um áhrif manngerðrar mengunar á umhverfið okkar mörg ár fram í tímann. Við vitum líka að ef við komum ákveðnum róttækum breytingum í gegn gætum við breytt þeirri spá verulega. Við getum séð stjörnuspekina á svipaðan hátt. Þegar við sjáum erfiðar hreyfingar í kortunum framundan vitum við að það verður ekki hjá því komist að það verði erfiðir tímar, en við getum undirbúið okkur fyrir þá og gert hvað sem við getum til þess að mýkja fallið. Á sama tíma getum við ekki skoðað hvert einasta kort sem gæti snert hreyfinguna og haft þannig áhrif á okkur og okkar upplifun, og því getum við aldrei séð hlutina fyrir á fullkomlega nákvæman hátt. Margir stjörnuspekingar tala um stjörnuspár sem veðurspár, eða plánetuveður - þetta er frábær samlíking að mörgu leyti. Við vitum það vel á Íslandi hversu mikilvæg veðurspáin getur verið, og um leið hversu ónákvæm hún er. Stjörnuspár geta spáð fyrir um eðli hlutanna og nokkuð nákvæmlega um tímann, en ónákvæmnin er í túlkuninni.


Fæðingarkortið okkar sýnir okkar innra eðli og hvernig okkur er eðlislægt að bregðast við heiminum í kringum okkur. Þegar við lærum inn á okkar eigin kort fáum við tækifæri til þess að sjá þessi meðfæddu viðbrögð og hugmyndir frá óhlutbundnara sjónarhorni en við erum vön, og þá getum við líka tekið meðvitaða ákvörðun um hverju við viljum breyta, og fundið bestu leiðina til þess að gera það. Kortið er eins konar spegill sjálfsins en vegna þess hvernig það er sett upp, er tenging okkar við þessa spegilmynd ekki sú sama og ef hún væri persónugerð eða með okkar eigin andlit. Margar sálrænar aðferðir persónugera þessa spegilmynd, t.d. með ímynd um fortíðarsjálf eins og innra barnið, oft með mjög góðum árangri. Stjörnuspekin nær árangri á öðruvísi hátt og getur því virkað mjög vel samhliða öðrum sjálfsþekkingar- og atferlismeðferðum.

Þannig er t.d. Tvíburamerkið táknrænt fyrir þörfina til þess að spyrja spurninga, sækja okkur upplýsingar eða tala um hlutina á meðan Bogamannsmerkið táknar þörfina til þess að stökkva áfram, gera hlutina án þess að hugsa þá til enda og fylgja innsæinu án þess að hlusta um of á rökhugsunina. Þetta þýðir alls ekki að Tvíburinn geti ekki hlustað á innsæið eða að Bogamaðurinn geti ekki hugsað rökrétt, heldur að þetta séu þau eðlislægu viðbrögð sem eru líkleg til þess að koma upp ef við höfum ekki eytt tíma í að vinna með þau. Þegar við vitum að við erum með meðfædda hneigingu í aðra hvora áttina eigum við auðveldara með að sjá hvaðan sú hneiging kemur, og hvernig við getum beitt henni á öðruvísi máta.


Ef við hugsum um hvert stjörnumerki sem stórt mengi af táknmyndum sjáum við strax að merkingar þeirra skarast nokkuð. Ef við setjum pláneturnar á sama hátt upp sem mengi verður skörunin enn meiri, og svo getum við bætt húsunum við. Stjörnuspeki krefst þess að við getum séð hvert mengi, skörunina sem það hefur innan hvers korts, og túlkað þá skörun á heildrænan máta sem setur það allt í samhengi. Þetta krefst nokkurrar æfingar og getur tekið langan tíma að geta séð þetta allt saman í samhengi, hvað þá að geta svo sett það samhengi í orð sem annað fólk getur skilið! Til þess að geta lesið stjörnurnar almennilega er nauðsynlegt að læra að sjá kortið sem heild án þess að fókusa einungis á einn part þess. Þess vegna eru svokallaðar uppskriftabækur (þ.e. bækur sem lista lýsingar fyrir hverja stöðu eða fyrir tengingar milli himintunglanna), þó þær geti verið fróðlegar að skoða í byrjun, ekki ætlaðar til þess að reiða sig á í gegnum lærdómsferlið, því þær fókusa alltaf á stöður himintunglanna í tómarúmi í stað þess að sjá þær sem hluta af heildrænu kortinu. Á seinustu áratugum hefur Sólarmiðuð stjörnuspeki orðið svo vinsæl að margt fólk heldur að stjörnuspekin snúist eingöngu um Sólarmerki einstaklingsins. Það væri hins vegar eins og að lesa eingöngu textann aftan á bók og halda því fram að man hafi lesið allt sem skiptir máli í bókinni. Sólarmerkið getur verið áberandi, en það eru ótal hlutir sem geta gert það að verkum að það sé dempað eða undir miklum áhrifum frá öðru merki eða himintungli svo að birting þess í manneskjunni er á skjön við almennar lýsingar á merkinu.


Hugmyndir um gott eða slæmt, rétt eða rangt eiga ekki heima innan stjörnuspekinnar, og í raun krefst stjörnuspekin þess að við lærum að sleppa slíkri tvíhyggjuhugsun. Við ölumst samt mörg upp við mikla tvíhyggju og því gerist það reglulega að fólk túlkar stjörnuspekina (ranglega) samkvæmt slíkri hugsun. Oftar en ekki gerir það það að verkum að fólk finni fyrir útskúfun eða að hlutverkum sé þröngvað upp á það sem eiga alls ekki við. Algeng dæmi af samfélagsmiðlum eru t.d. hugmyndir um Vogir sem sætar ljóskur sem geta ekki tekið sjálfstæðar ákvarðanir; eða Sporðdreka sem kynlífsfíkla með ónáttúrulega mikinn áhuga á dauðanum. Þetta eru særandi og gróflega ýktar lýsingar á aðeins einum parti merkjanna. Oft segir þetta meira um hvernig manneskjan sem heldur slíkum hlutum fram sér sitt eigið kort, eða a.m.k. partinn af kortinu sem þessi merki vaka yfir. Hvert einasta kort inniheldur allar pláneturnar, öll merkin og öll húsin, og hvert kort hefur endalaus tækifæri til þess að vinna með uppsetningunni innan þess á einstakan og merkilegan hátt.

Himintunglin geta ekki táknað fullkomlega slæma eða góða hluti, en við getum séð vísbendingar um hvort og hvenær það geti komið upp erfiðleikar eða hraðahindranir á næstunni, og það sem er kannski mikilvægara, hvernig við getum brugðist við þeim á ólíkan hátt. Fæðingarkortið sýnir okkur meðfædd viðbrögð okkar, líklega triggera og ómeðvitaða hegðun, en með því að skoða þá hluti í kortinu getum við líka lært hvernig við getum gripið okkur sjálf, dílað við triggera og brugðist meðvitað við hlutunum. Erfið staða í stjörnunum getur auk þess táknað erfiðleika fyrir eina manneskju en hamingju fyrir þá næstu, allt eftir því hvernig staðan snertir kort þeirra.

Eitt algengt dæmi eru afturhvörf (e. retrogrades), en hræðsluáróðurinn í kringum þau er mjög algengur á netinu. Almennu reglurnar fyrir afturhvörf Merkúrs eru t.d. að skrifa ekki undir bindandi samninga (eða ef þú kemst ekki hjá því, þá að þrílesa alla pappíra vandlega), búa sig undir seinkanir í samgöngum og almenna samskiptaörðugleika. En fyrir manneskju með Merkúr í afturhvörfum í fæðingarkortinu sínu getur þetta verið akkúrat öfugt og afturhvörfin verða þá tími þar sem hán getur loksins slakað á og fundið þægilegt flæði í samskiptum. Eins geta afturhvörf Merkúrs í einu merki verið fullkomlega ólík afturhvörfum í öðru merki, því þá gerist það í mismunandi húsum í kortinu þínu og snertir himintunglin í kortinu þínu öðruvísi - og í enn öðrum húsum, með aðrar tengingar í kortum fólksins í kringum þig.


Ég vona að þessi texti hafi vakið þig til umhugsunar og kannski gefið þér nýja sýn á stjörnuspeki. Hvert einasta fæðingarkort er einstakt og með óendanlega marga vinkla sem gefa okkur einstaka sýn og sjálfið og lífið sem við lifum. Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi þetta eða vilt vita meira um þitt eigið kort, endilega hafðu samband.


¹ Setningin er jafnan þýdd svona á ensku: “That which is above is like to that which is below, and that which is below is like to that which is above” - og er betur þekkt í styttri útgáfu; “As above, so below”.

² Elstu heimildir okkar um þróað kerfi sem greinir stjörnurnar eru taldar vera frá yfir 4000 árum síðan (Kelley, David, H. and Milone, E.F. - Exploring ancient skies: an encyclopedic survey of archaeoastronomy); en forngripir sýna einnig að forverar okkar hafi fylgst náið með Tunglstöðum fyrir um 25.000 árum (Marshack, Alexander - The roots of civilisation: the cognitive beginnings of man's first art, symbol and notation).

³ Þættirnir Changing of the Gods voru gefnir út árið 2022, en þeir byggja að miklu leyti á bók Tarnas og sýna á aðgengilegan hátt hinar ýmsu speglanir sem Tarnas fjallar um á mun ítarlegri hátt í bókinni. Þættirnir ná einnig að sýna t.d. speglanir í kringum Covid faraldurinn sem bókin, sem var gefin út árið 2006, náði ekki til.

⁴ Gott dæmi um þetta er sagan af stjörnuspekingnum John Varley, sem sá fyrir erfiða hreyfingu frá Úranusi í eigin korti, en þar sem þetta var skömmu eftir að við fundum Úranus, var Varley ekki viss um hvað hreyfingin þýddi. Hann aflýsti því öllum viðtölum dagsins, og lokaði sig inni heima hjá sér til að bíða órólegur eftir því sem koma skyldi - og um það leyti sem hreyfingin var að klárast kviknaði í húsinu hans! Sem betur fer meiddist enginn, og Varley var, samkvæmt sögunni, bara ánægður með eldinn því hann lærði þar með meira um merkingu Úranusar. (Patrick Curry - A Confusion of Prophets: Victorian and Edwardian Astrology.)

⁵ Ef við sjáum hreyfingu í eigin korti sem bendir til erfiðrar uppákomu sem tengist foreldri okkar getum við líklega séð nokkuð vel hvað leiðir til uppákomunnar fyrir okkur. En hvort/hvaða foreldri er það, og hvaða önnur kort hafa áhrif á okkur, foreldrið, fólk í kringum okkur bæði og svo almenna stjörnuveðrið?

⁶ Margir sálfræðingar og meðferðaraðilar hafa nýtt stjörnuspeki samhliða slíkum meðferðum í gegnum tíðina, til dæmis fletti Carl Jung upp stjörnukorti sinna meðferðaraðila og nýtti upplýsingar þaðan óspart í sinni vinnu. (Sjá t.d. Jung on Astrology - ed. Safron Rossi and Keiron Le Grice)

⁷ Þess vegna mæli ég með því að finna fólk sem er á svipuðu róli innan stjörnuspekinnar og þú til þess að tala við. Að geta sent einhverjum skilaboð sem lýsir ákveðinni stöðu milli stjarnanna sem þú átt erfitt með að koma í almenn orð, og geta talað við viðkomandi um stöðuna getur verið hjálplegra en að lesa heila bók um stöðuna.





38 views0 comments

Comments


© Alda Örlygur Villiljós 2023. Aftur á heimasíðu.

bottom of page